Ferill 1084. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 1587  —  1084. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana og skipulagslögum (umsagnarfrestur).

Flm.: Teitur Björn Einarsson, Jón Gunnarsson, Hildur Sverrisdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason, Berglind Ósk Guðmundsdóttir.


I. KAFLI

Breyting á lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021.
1. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Umsagnir umsagnaraðila samkvæmt lögum þessum skulu berast innan átta vikna frá því að umsagnarbeiðni barst, nema mælt sé fyrir um annað í lögum. Berist umsögn ekki innan lögbundins frests skal litið svo á að umsagnaraðili hafi engar athugasemdir.

2. gr.

    Í stað orðanna „getur Skipulagsstofnun“ tekið í 3. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna kemur: skal Skipulagsstofnun taka.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      Orðin „að lágmarki“ í 2. málsl. 2. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „getur Skipulagsstofnun lokið“ í 4. málsl. 2. mgr. kemur: skal Skipulagsstofnun ljúka.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      Orðin „að lágmarki“ í 3. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „getur Skipulagsstofnun lokið“ í 5. málsl. 1. mgr. kemur: skal Skipulagsstofnun ljúka.

II. KAFLI

Breyting á skipulagslögum, nr. 123/2010.
5. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Umsagnir umsagnaraðila samkvæmt lögum þessum skulu berast innan átta vikna frá því að umsagnarbeiðni barst, nema mælt sé fyrir um annað í lögum. Berist umsögn ekki innan lögbundins frests skal litið svo á að umsagnaraðili hafi engar athugasemdir.

6. gr.

    Í stað orðanna „ákveðins frests sem eigi skal vera skemmri en sex vikur“ í 3. málsl. 24. gr. laganna kemur: sex vikna.

7. gr.

    Í stað orðanna „ákveðins frests sem eigi skal vera skemmri en sex vikur“ í 2. mgr. 31. gr. laganna kemur: sex vikna.

8. gr.

    Skammstöfunin „a.m.k.“ í 2. mgr. 44. gr. laganna fellur brott.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta fjallar um breytingu á lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana og skipulagslögum með það að markmiði að tímafrestir umsagnaraðila í leyfis- og skipulagsferli séu virtir þannig að framkvæmdaraðili geti búið við meiri vissu um framvindu verkefnisins og aðlagað aðra þætti þess að ferlinu. Markmið frumvarps þessa er að styrkja réttindi borgaranna og tryggja góða stjórnsýsluhætti og fyrirsjáanleika í stjórnsýslu hins opinbera. Með frumvarpinu er verið að einfalda regluverk, sem mun fela í sér aukna skilvirkni í framkvæmd laganna, og festa málshraðareglu stjórnsýsluréttar betur í sessi.
    Í frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar að ef umsagnaraðili virðir ekki setta tímafresti þá verði að lögum litið svo á að viðkomandi stofnun samþykki efnislega umsókn sem beint er til umsagnarbeiðanda eða telji ekki ástæðu til að bregðast við með umsögn, með öðrum orðum að óheimilt verði að tefja framvindu málsins ef fagstofnun dregur það fram yfir tímafrest að skila umsögn. Afar brýnt er að skýrir tímafrestir séu til staðar og að þeir séu virtir.
    Í allri núgildandi löggjöf um leyfisferil framkvæmda, skipulagsferla sveitarfélaga og mat á umhverfisáhrifum eru víðast lögbundnir tímafrestir fyrir umsagnir og kynningar. Þrátt fyrir það eru tímafrestir ekki virtir af fagstofnunum með tilheyrandi töfum og óvissu um framvindu verkefna. Í 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er að finna eina af mikilvægustu reglum stjórnsýsluréttarins, málshraðaregluna. Í henni felst að stjórnvaldsákvarðanir skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu er jafnframt vísað sérstaklega til þeirra tilvika er nauðsyn er að afla umsagna áður en ákvörðun er tekin og skyldu stjórnvalda til að tiltaka fyrir hvaða tíma óskað er eftir því að umsagnaraðili láti í té umsögn sína. Tímafrestir umsagnaraðila til að skila umsögn eru því að meginstefnu til háðir ákvörðun stjórnvalda hverju sinni. Algengt er þó að kveðið sé á um tiltekin tímamörk í lögum, hvort sem mælt er þar fyrir um lágmarks- eða hámarkstíma sem umsagnaraðili hefur til að skila inn umsögn. Aftur á móti er þar sjaldan mælt fyrir um hvort og þá hvaða afleiðingar það hefur ef umsagnaraðilar skila ekki umsögn innan hins lögbundna tímafrests. Hætt er við því að í slíku lagaumhverfi geti umsagnaraðilar tafið mál sem snerta mikilvæga hagsmuni einstaklinga og lögaðila, til að mynda leyfisumsókn, með því að draga á langinn að senda inn umsögn sem þarf lögum samkvæmt að liggja fyrir áður en ákvörðun er tekin. Í frumvarpi þessu er því lagt til að kveðið verði á um almennan hámarkstíma, sem umsagnaraðilar hafa samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, og skipulagslögum, nr. 123/2010. Yrði þá hámarkstími sem umsagnaraðili hefur til að skila inn umsögn átta vikur, nema mælt sé fyrir um annan tímafrest í lögum. Þá yrði jafnframt skylt að líta svo á að berist umsögn umsagnaraðila ekki innan lögbundins frests geri umsagnaraðili engar athugasemdir við umrætt mál.
    Í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2022 kemur fram að löng málsmeðferð sé algengasta ástæða kvartana til embættisins, líkt og hefur alla jafnan verið. Rík þörf er á því að skýra betur þá tímafresti sem umsagnaraðilar hafa og afleiðingar þess ef þeim er ekki fylgt. Frumvarpið tekur til framkvæmda og leyfisferla sem falla undir skipulagslög, nr. 123/2010, og lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, sbr. 1. mgr. 2. gr. síðarnefndu laganna:
    „a. skipulagsáætlanir og breytingar á þeim samkvæmt skipulagslögum og lögum um skipulag haf- og strandsvæða,
    b. aðrar áætlanir og breytingar á þeim sem marka stefnu fyrir leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í 1. viðauka við lög þessi og eru undirbúnar og/eða afgreiddar af stjórnvöldum og unnar samkvæmt lögum eða ákvörðun ráðherra,
    c. framkvæmdir sem kunna eða eru líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. 1. viðauka við lög þessi.“
    Ný lagaregla tekur þá til allra umsagnaraðila, sbr. skilgreiningu í 27. tölul. 2. gr. skipulagslaga:
    „ Umsagnaraðilar: Opinberar stofnanir og stjórnvöld sem sinna lögbundnum verkefnum á sviði skipulagsmála og leyfisveitingum þeim tengdum.“